Fara yfir á efnisvæði

Fréttatilkynning

19.03.2008

Viðskiptaráðuneytið vekur athygli á ákvæðum laga um alferðir nr. 80/1994, en þar er skýrt kveðið á um að verð sem sett er fram í samningi um alferð skuli haldast óbreytt nema skýrt sé tekið fram við samningsgerð að verð geti hækkað eða lækkað og nákvæmlega tilgreint hvernig reikna skuli út breytt verð.

Með alferð er átt við fyrir fram ákveðna samsetningu ekki færri en tveggja eftirfarandi atriða; flutnings, gistingar eða annarrar þjónustu við ferðamenn sem tekur til verulegs hluta ferðarinnar, þegar ferð er seld eða boðin til sölu á heildarverði og þegar þjónustan tekur til lengri tíma en 24 klst. eða í henni felst gisting.

Einungis er heimilt að breyta verði á alferð í eftirfarandi tilvikum enda séu skýr ákvæði um þetta í samningi:

  1. Flutningskostnaður þ.m.t. eldneytisverð breytist.
  2. Álög, skattar o.fl. breytast.
  3. Gengi breytist sem við á um hina tilteknu alferð.

Til þess að heimilt sé að breyta verði á alferð þarf að koma skýrt fram í skilmálum sem kaupandi samþykkir við kaup að til breytinga geti komið. Ekki er nægjanlegt að vísa til aukaskilmála vegna verðbreytinga, t.d. í bæklingi. Ekki er heimilt að hækka verð alferðar síðustu 20 daga fyrir brottfarardag.

Á þetta atriði hefur reynt í ákvörðun Neytendastofu sem staðfest var með úrskurði Samgönguráðuneytisins, dags. 2. ágúst 2007, þar sem segir m.a.

„Telur ráðuneytið 7. gr. alferðalaga (og 4. gr. tilskipunar) vera skýra um að nákvæmlega skuli tilgreina í samningi milli aðila, hvort sem er í skilmálum eða á annan hátt, hvernig reikna skuli breytt verð.  Til þess þurfi að tilgreina í það minnsta þann gjaldmiðil sem verð ferðar miðast við og getur tekið breytingum vegna og viðmiðunargengi.  Hjá þeirri lagaskyldu verði ekki komist með því að upplýsa um þessi atriði með öðrum hætti enda ekki að finna heimild til þess í alferðarlögum (eða tilskipuninni).  Eftirfarandi upplýsingar, hvort sem eru í sérstöku bréfi eða á heimasíðu kæranda [Heimsferða], geti ekki komið í stað ákvæða í samningi sem skýr lagaskylda er fyrir né upplýsingar í bæklingi, þótt þær séu bindandi fyrir kæranda.“

Úrskurðurinn byggir á skýrum ákvæðum laga um alferðir og ákvæðum í tilskipun ESB nr. 90/314/EBE.  Af honum leiðir að í almennum samningsskilmálum ber að tilgreina nákvæmlega hvort verð alferðar sé háð að einhverju leyti gengisbreytingu, hve stór hluti hennar sé háður gengi og hvaða gengi (erlend mynt) á við hina tilteknu alferð. 

TIL BAKA