Fara yfir á efnisvæði

Í júlí og ágúst gerði Neytendastofa könnun á vörum úr eðalmálmum

03.09.2008

Vörur úr eðalmálmi t.d. skartgripir, borðbúnaður og hnífapör,  sem boðnar eru til sölu á Íslandi eiga að uppfylla ákvæði laga um vörur unnar úr eðalmálmum nr. 77/2002 auk ákvæða reglugerðar um vörur unnar úr eðalmálmum nr. 938/2002.  Þetta hefur í för með sér að einungis má selja eða afhenda vörur úr eðalmálmum sem uppfylla kröfur sem þar eru settar fram. Markmið laganna er að vernda neytendur með því að setja reglur um að vörur úr eðalmálmum sem seldar eru til þeirra úr gulli, silfri, palladíum og platínu hafi þann hreinleika sem seljendur lofa við sölu á vörunni. Nánari upplýsingar um ákvæði fyrrgreindra laga og reglugerðar má finna hér.

Allar vörur unnar úr eðalmálmum í atvinnuskyni skulu bera hreinleikastimpil og nafnastimpil og er óheimilt að flytja slíkar vörur inn til landsins, selja þær eða bjóða til sölu nema þær beri slíka stimpla.

Lögbundnir stimplar:

• Nafnastimpill auðkennir framleiðanda, seljanda eða innflytjanda vöru þannig að hægt sé að rekja uppruna hennar. Nafnastimpill er gerður úr einum eða fleiri bókstöfum og skulu þeir mynda nafn rétthafa nafnastimpils eða firmaheiti eða styttingu / skammstöfun þess. Einnig má nota tákn sem viðurkennd hafa verið af Einkaleyfastofu.

• Hreinleikastimpill er þriggja tölustafa stimpill sem sýnir hversu mikið magn af hreinu gulli, silfri, platínu eða palladíum er í viðkomandi vöru.

Markmiðið með könnuninni var að fá yfirlit yfir hvernig staðan er á markaðnum varðandi lögbundna stimpla á vörum unnum úr eðalmálmum. Skoðað var hjá 35 söluaðilum á höfuðborgarsvæðinu, samtals 227 vörur.  Valdar voru mismunandi vörur úr eðalmálmum í  útstillingum.  Skráð var notkun hreinleikastimpla og gildra nafnastimpla á vörum unnum úr eðalmálmum.  Nær allar vörurnar voru með hreinleikastimpil eða  86% af vörunum, 14% báru engan eða rangan stimpil.  Flestar vörur báru nafnastimpil eða um 90%.  Sjá nánar hér.

Neytendastofa mun senda skriflega athugasemdir  til söluaðila. Gripið verður til aðgerða telji stofnunin þess þörf.
Neytendur geta komið ábendingum á framfæri í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni rafraen.neytendastofa.is

 

TIL BAKA