Fara yfir á efnisvæði

Staða rafmagnsöryggismála á varnarsvæðinu á Miðnesheiði

21.05.2007

Vegna frétta um stöðu rafmagnsöryggismála á fyrrum varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli vill Neytendastofu taka fram eftirfarandi:

 

Í desember sl. benti Neytendastofa utanríkisráðuneytinu á að raforkukerfi, raflagnir og rafbúnaður á varnasvæðinu væru ekki í samræmi við íslensk lög og reglur á rafmagnssviði og því yrði að huga vel að rafmagnsöryggismálum áður en aðgengi að svæðinu yrði rýmkað. Í framhaldi af ábendingu stofnunarinnar var haldinn sameiginlegur fundur með fulltrúum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, utanríkisráðuneytisins og Neytendastofu. Á fundi þessum var óskað eftir úttekt stofnunarinnar á stöðu rafmagnsöryggismála á varnarsvæðinu.

 

Eftir úttekt Neytendastofu á raflögnum og rafbúnaði svæðisins sem fram fór í janúar s.l. kom í ljós að rafmagnskerfi á svæðinu er miðað við þarfir amerískra notenda og raflagnir  og rafbúnaður uppfyllir ekki íslenskar reglur á rafmagnsöryggissviði.

 

Rafföng, s.s. rofar og tenglar, kælar / frystar, heimilistæki o.þ.h. uppfylla ekki kröfur sem gerðar eru vegna öryggiskrafna á EES-svæðinu, þ.m.t. á Íslandi og öll sala, leiga eða önnur afhending þeirra því óheimil.

 

Stofnunin telur því ekki ásættanlegt að húseignir á svæðinu verði teknar í notkun fyrr en raflagnir þeirra, þ.m.t. rafmagnstöflur og annar rafbúnaður, hafa verið færðar til samræmis við íslenskar reglur á rafmagnsöryggissviði.

 

Neytendastofa hefur verið í góðu samstarfi við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og ekkert bendir til annars en að það fari að tilmælum stofnunarinnar.

TIL BAKA