Fréttatilkynning
Í tengslum við lækkun á virðisaukaskatti 1. mars 2007 bárust Neytendastofu fjölmargar verðlagsábendingar vegna sölu grunnskóla á mat til nemenda.
Ábendingar frá neytendum hafa beinst að því að oft hafi verð í mötuneytum grunnskóla ekki lækkað þrátt fyrir að virðisaukaskattur hafi lækkað á hráefni til mötuneyta svo og vinnu við þá þjónustu þegar það á við. Í 19. gr. laga nr. 57/2005 segir að Neytendastofa skuli í því skyni að upplýsa neytendur og efla verðskyn þeirra afla upplýsinga um verð, verðmyndun og önnur viðskiptakjör og birtir niðurstöður eftir því sem ástæða þykir til. Ákvæði laganna taka til hvers konar atvinnustarfsemi án tillits til þess hvor hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum. Af þessu tilefni ákvað Neytendastofa að gera könnun á því verði sem nemendur greiða fyrir hádegisverð í grunnskólum landsins og hvort skýrir skilmálar gilda í grunnskólum um verðmyndun og verðlagningu á matsölu til nemenda.
Könnun Neytendastofu tók til alls 124 skóla í 39 sveitarfélögum.Niðurstöður könnunarinnar liggja nú fyrir og eru helstu niðurstöður eftirfarandi:
• Nemendur greiða hráefni eingöngu í alls 38 skólum
Í 38 skólum í 25 sveitarfélögum kemur fram að nemendur greiða eingöngu hráefni en annar rekstrarkostnaður, s.s. laun, rekstur, viðhald, o.fl. greiðir hlutaðeigandi sveitarfélag. Lægsta verð í þessum flokki var kr. 140 og hæsta kr. 417. Meðalverð var kr. 240.
Nánari sundurliðun er í meðfylgjandi töflu.
• Nemendur greiða hráefni og hluta kostnaðar í alls 79 skólum.
Í 79 skólum í 12 sveitarfélögum kemur fram að nemendur greiða hráefni en annan rekstrarkostnað, s.s. laun, rekstur, viðhald, o.fl. greiða nemendur að hluta til. Lægsta verð í þessum flokki var kr. 185 og hæsta kr. 341. Meðalverð var kr. 262.
Nánari sundurliðun er í meðfylgjandi töflu.
• Nemendur greiða allan kostnað í 4 skólum
Í 4 skólum í alls 2 sveitarfélögum kemur fram að nemendur greiða allan kostnað vegna matarkaupa í mötuneyti skólans og annast einkaaðilar alfarið þá þjónustu. Lægsta verð í þeim flokki var kr. 338 og hæsta verð kr. 340. Meðalverð var kr. 340.
Nánari sundurliðun er í meðfylgjandi töflu.
• Ókeypis skólamáltíðir
Aðeins tveir skólar af þeim sem könnunin náði til bjóða nemendum sínum upp á ókeypis skólamáltíðir en það eru grunnskóli Skagastrandar og Stóru Vogaskóli í Vatnsleysustrandarhreppi.Í öllum ofangreindum tilvikum er ekkert mat lagt á gæði máltíða eða þjónustuna að öðru leyti. Könnun Neytendastofu leiðir í ljós að algengt er að skilmálar í grunnskólum séu óljósir um kostnaðarskiptingu milli hráefnis og annars kostnaðar við skólamáltíðir. Neytendastofa vill beina þeim tilmælum til ábyrgðaraðila skólamötuneyta að hafa skýra skilmála um kostnaðarskiptingu og verðmyndun máltíða í skólamötuneytum.
Nánari upplýsingar veitir Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, s.510 11 00 og fs. 663 53 93.
Reykjavík 29. maí 2007.