Fara yfir á efnisvæði

Auglýsing Hringdu og ummæli í blaðagrein bönnuð

14.10.2013

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun um auglýsingu Hringdu og blaðagrein sem skrifuð var af framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Ákvörðunin er tekin í tilefni kvörtunar frá Símanum.

Í auglýsingunni sem kvörtunin snéri að var auglýst internetþjónusta Hringdu um ljósleiðara frá Gagnaveitu Reykjavíkur. Að því er auglýsinguna varðar er fjallað um það í ákvörðuninni að hún væri villandi gagnvart neytendum þar sem ekki komi fram að til viðbótar við mánaðargjald til Hringdu þurfi að borga mánaðarlegt aðgangsgjald til Gagnaveitunnar. Að sama skapi teljist það villandi viðskiptahættir að fullyrða að uppsetning á netbúnaðinum sé „frí“ þegar hún er háð fimm mánaða bindisamningi og að halda því fram að tengingin sé stöðugri og öruggari án þess að geta sannað það með fullnægjandi hætti. Þá hafi Hringdu brotið gegn lögum um viðskiptahætti og markaðssetningu með því að birta fullyrðinguna „Hringdu – það er ódýrara“ án þess að geta sannað hana. Að lokum taldi Neytendastofa það ósanngjarnt gagnvart Símanum, kasta rýrð á Símann og þannig brjóta gegn lögunum að segja í auglýsingunni: „Ekki láta Símann fífla þig og fáðu Ljósleiðarann alla leið inn í stofu“. Hringdu var bannað að birta auglýsinguna að viðlögðum sektum.

Blaðagreinin sem kvörtun Símans snýr að birtist í Morgunblaðinu undir nafni framkvæmdastjóra Hringdu og var sérstaklega tekið fram í lok greinarinnar við hvað hann starfar. Neytendastofa féllst ekki á rök Hringdu um að greinin hafi verið sett fram persónulega og ekki fyrir hönd félagsins. Af samhengi greinarinnar taldi Neytendastofa hana skrifaða vegna tengsla greinarskrifanda við Hringdu og að henni væri ætlað að hafa áhrif á samkeppni milli Hringdu og annarra fyrirtækja á fjarskiptamarkaði. Lög um viðskiptahætti og markaðssetningu taka til auglýsinga, kynninga og allrar annarra svipaðra viðskiptahátta og því geta greinarskrif sem þessi fallið undir lögin.

Í greininni er fjallað um Internetmarkaðinn á Íslandi og því haldið fram að hann einkennist af samkeppnisbrotum og okri stóru fjarskiptafyrirtækjanna og því líkt við „frægt samráð olíufélaganna“. Þá er í blaðagreininni gerðar athugasemdir við Ljósnet Símans og fjallað um ágæti þeirrar þjónustu sem Hringdu býður. Neytendastofa taldi þessi ummæli í andstöðu við góða viðskiptahætti og brjóta gegn lögunum.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.  

TIL BAKA