Fara yfir á efnisvæði

Auglýsingar og slagorð Griffils bannað

03.01.2013

Neytendastofu barst erindi frá Egilsson ehf. sem rekur ritfangaverslanirnar A4 þar sem kvartað var yfir auglýsingum Griffils. Í auglýsingunum var vísað til sona Egils og gert að því grín hvað hann væri klaufskur og hvort eitthvað væri að honum.

Neytendastofa féllst á það með Egilsson að auglýsingarnar væru andstæðar góðum viðskiptaháttum og bannaði Griffli birtingu þeirra.

Egilsson kvartaði einnig yfir slagorði Griffils „Griffill, alltaf ódýrari“. Á fyrirtækjum hvílir skylda til að sanna allar fullyrðingar sínar. Griffill vísaði til þess að skv. verðkönnunum ASÍ á skólabókum árin 2010 og 2011 hafi Griffill verið ódýrastur og árið 2012 hafi Griffill lækkað verð á sínum bókum eftir að í ljós kom að þær voru ekki ódýrastar skv. verðkönnuninni.

Neytendastofa taldi fullyrðinguna of víðtæka þar sem Griffill selji mun fleiri vörur en skólabækur og ekki hafi verið lögð fram nein gögn til að sýna fram á að þær vörur væru ódýrari í Griffli en hjá keppinautum.

Griffli var því bannað að birta fullyrðinguna.

Ákvörðunin er nr. 54/2012 og má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA