Ákvörðun Neytendastofu vegna bílasamnings Lýsingar
Neytendastofa hefur tekið ákvörðun í máli vegna skilmála bílasamnings við Lýsingu. Samningurinn var bæði í íslenskum krónum og erlendri myntkörfu. Kvörtunin var í nokkrum liðum þar sem gerðar voru athugasemdir við skilmála lánsins og framkvæmd við innheimtu þess vegna verðtryggingar og breytilegra vaxta af íslenskum hluta lánsins. Auk þess sem gerðar voru athugasemdir við skilmála og framkvæmd við innheimtu vegna vaxta og vaxtaálags á erlendum hluta lánsins. Kvartandi taldi samninginn ekki veita heimild til töku seðilgjalds og taldi ákvörðun um gengi þeirra erlendu gjaldmiðla sem myntkarfan samanstendur af ekki vera í samræmi við skilmála. Þá var kvartað yfir íþyngjandi skilmálum um uppsögn samningsins.
Neytendastofa taldi ákvæði samningsins um seðilgjald og uppsögn ekki í andstöðu við lög. Hins vegar taldi stofnunin ákvæði samningsins um vexti lánsins, bæði íslenska og erlenda hluta þess, brjóta gegn lögum um neytendalán og lögum um óréttmæta viðskiptahætti. Þá taldi stofnunin að Lýsing yrði að bera ábyrgð á því að félagið hafi fyrir mistök ekki greint frá því á samningi að íslenskur hluti lánsins væri verðtryggður.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér (nr. 34/2010)