Fara yfir á efnisvæði

Ákvörðun Neytendastofu vegna Tax Free auglýsinga Húsasmiðjunnar

19.07.2011

Neytendastofu barst kvörtun frá Byko vegna Tax Free auglýsinga Húsasmiðjunnar þar sem Byko taldi þær brjóta gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Athugasemdir Byko voru nokkrar og töldu þeir auglýsingar m.a. vera villandi þar sem engin afsláttar prósenta kom fram í auglýsingunum og að í sumum tilvikum væru auglýsingarnar settar fram með þeim hætti að gefið væri í skyn að vara væri seld án virðisaukaskatts.

Neytendastofa féllst á þær athugasemdir Byko að Húsasmiðjunni bæri að gefa upp prósentu afsláttar bæði í auglýsingum og á sölustað. Það yrði að koma fram að afslátturinn nemi 20,32% en ekki 25,5% eins og margir neytendur virðast gera ráð fyrir. Stofnunin taldi því ekki fullnægjandi að vísa til þess að um sé að ræða afslátt sem samsvari virðisaukaskatti. Í nokkrum auglýsingum Húsasmiðjunnar var kynnt að veittur væri Tax Free afsláttur af öllum vörum í verslun þrátt fyrir að gosdrykkir og sælgæti væri ekki selt með afslætti. Neytendastofa taldi Húsasmiðjuna þurfa að greina frá því í auglýsingum og á sölustað væru einhverjar vörur undanþegnar afslætti. Neytendastofa féllst aftur á móti ekki á það með Byko að það væri villandi og ósanngjarnt gagnvart neytendum að geta þess ekki að virðisaukaskatti væri skilað til ríkissjóðs og að afslátturinn sé á kostnað Húsasmiðjunnar.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA