Fara yfir á efnisvæði

Fyrra verð á netdill.is villandi

04.09.2018

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun gagnvart Netdíl ehf., rekstraraðila vefsíðunnar netdill.is, vegna kynningar fyrirtækisins á lækkuðu verði án þess að geta sýnt fram á raunverulega verðlækkun.

Neytendastofu bárust ábendingar frá neytendum þar sem kvartað var yfir því að vörur á vefsíðunni hafi ekki verið til sölu á fyrra verði. Í svari Netdíls kom m.a. fram að ekki væri um að ræða fyrra verð heldur væri hægt að kaupa vöruna á betra verði með því að forpanta hana en annars gilti hærra verðið, eftir að varan væri komin til landsins.

Í ákvörðun Neytendastofu var m.a. vísað til þess að framsetning á verði á vefsíðunni gæfi til kynna að um lækkað verð væri að ræða. Þannig væru á vefsíðunni gjarnan sett tvö verð hjá vöru og strikað yfir hærra verðið. Auk þess bæri vefsíðan heitið netdill.is sem vísaði til þess að um raunverulegt verðhagræði væri að ræða og að vörur sem seldar séu á síðunni séu á lækkuðu verði. Þá væri vísað til þess á vefsíðunni að vörurnar séu á tilboði og að hærra verðið sé fullt verð.

Neytendastofa taldi því rétt að banna Netdíl að viðhafa þessa viðskiptahætti.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA