Fara yfir á efnisvæði

Fyrra verð á skanva.is villandi

30.01.2019

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun gagnvart Skanva ehf., rekstraraðila vefsíðunnar skanva.is, vegna kynningar fyrirtækisins á lækkuðu verði án þess að geta sýnt fram á raunverulega verðlækkun. Neytendastofu bárust ábendingar frá neytendum þar sem kvartað var yfir því að vörur á vefsíðunni hafi ekki verið til sölu á fyrra verði. Í svörum Skanva kom m.a. fram að félagið bjóði upp á afsláttarkjör ef verslað er á netinu.

Í ákvörðun Neytendastofu var vísað til þess að félagið hafi ekki fært sönnur fyrir því að vörurnar hafi verið seldar á venjulegu verði. Þá taldi Neytendastofa að framsetning auglýsinga félagsins væri til þess fallin að telja neytendum trú um að þeir væru að kaupa vörunar á lægra verði en þær höfðu áður verið seldar á.

Neytendastofa bannaði því Skanva að viðhafa þessa viðskiptahætti.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA