Neytendastofa sektar Elko
Neytendastofa hefur lagt stjórnvaldssekt á Elko vegna ófullnægjandi upplýsinga í auglýsingum félagsins um vaxtalaus lán. Í lögum um neytendalán segir með skýrum hætti hvaða upplýsingar eiga að koma fram um lán þegar þau eru auglýst. Þegar neytendur eru upplýstir um vexti eða kostnað láns þurfa því þær upplýsingar að koma fram. Í þessu tilviki komu fram upplýsingar um að lánið væri vaxtalaust og vantaði því frekari upplýsingar t.d. um heildarfjárhæð lánsins, árlega hlutfallstölu kostnaðar o.fl. Í niðurstöðu Neytendastofu kom fram að upplýsingarnar þurfi að koma fram á sama stað og neytandi er upplýstur um vexti eða kostnað af láni.
Neytendastofa taldi að Elko hafi með þessari háttsemi brotið gegn fyrri ákvörðun stofnunarinnar og lagði 250.000 kr. stjórnvaldssekt á félagið.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.