Fara yfir á efnisvæði

Fullyrðingar Guide to Europe og samningar um pakkaferð

23.12.2024

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun gagnvart Travelshift ehf., rekstraraðila Guide to Europe, vegna fullyrðinga, upplýsinga í samningi um pakkaferðir og verðframsetningu á vefsíðunni guidetoeurope.is. Í málinu er m.a. fjallað um fullyrðingar Guide to Europe um mesta úrvalið, bestu ferðirnar, ódýrustu, lægstu og bestu verðin o.fl.

Í svörum Travelshift kom m.a. fram að ferðir sem félagið bjóði séu bestar m.t.t. umsagnareinkunna á netinu og út frá þörfum og óskum viðskiptavinarins sem geti valið úr yfirgripsmiklu vöruúrvali og þannig búið til sína bestu ferð. Guide to Europe hafi stærsta markaðstorg á internetinu þegar komi að ferðum til Evrópu og sé í langflestum tilvikum ódýrasta ferðaskrifstofan samkvæmt úttekt sem félagið lét gera. Tilgreind „verð frá“ séu ávallt aðgengileg neytendum.

Í niðurstöðum Neytendastofu kom fram fullyrðingar um mesta úrvalið og ódýrustu verðin væru afdráttarlausar og umfangsmiklar og samanburðarkönnun Travelshift sanni ekki fullyrðingarnar í þeirri mynd sem þær eru settar fram. Félagið hefði einnig fullyrt með afdráttarlausum hætti að það bjóði upp á bestu ferðir, bestu hótel, flug, gististaði og skoðunarferðir án þess að fram kæmi að það byggi á umsagnareinkunnum. Fullyrðingarnar væru því ósannaðar og villandi. Þá taldi stofnunin að framsetning verðs á yfirlitssíðum og leitarsíðum Guide to Europe veitti neytendum villandi upplýsingar um verð.

Þá taldi stofnunin að núverandi framsetning á skilmálum Travelshift þar sem orðalag er óskýrt og skilmálar vísa ítrekað til annarra hliðarskilmála uppfyli ekki skilyrði um að samningur um pakkaferð skuli vera skýr, á skiljanlegu og greinargóðu máli.

Neytendastofa bannaði því Travelshift birtingu fullyrðinganna auk þess að beina þeim fyrirmælum til Travelshift að haga samningum um pakkaferðir, þ.m.t. skilmálum sínum, á þann hátt að þeir séu í samræmi við þau lög sem gilda um starfsemi félagsins.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA