Fara yfir á efnisvæði

Fullyrðingar um virkni NatPat plástra

07.04.2025

Neytendastofu barst ábending vegna fullyrðinga Sif Verslunar ehf., rekstraraðila netverslunarinnar sifverslun.is, um virkni NatPat plástra sem félagið selur.

Í kjölfar ábendingarinnar óskaði Neytendastofa eftir sönnunum fyrir fullyrðingum sem birtar voru í netverslun félagsins þar sem því var m.a. haldið fram að NatPat plástrar gætu aukið svefngæði, minnkað stresss, þunglyndi, kvíða og þreytu auk þess að vera fullkomnir fyrir þá sem vantar hjálp við einkenni kvíða, ADHD, einhverfu eða bara róa barn sem hefur of mikla orku.

Sif Verslun færði ekki fullnægjandi sönnun fyrir fullyrðingunum en á meðan meðferð málsins stóð gerði félagið breytingar á netversluninni sem fól í sér að einstaka fullyrðingar voru fjarlægðar.

Taldi Neytendastofa fullyrðingarnar veita rangar upplýsingar um helstu einkenni NatPat plástranna sem væru líklegar til að valda því að hinn almenni neytandi tæki viðskiptaákvörðun sem hann myndi ekki annars hafa tekið. Fullyrðingarnar væru því líklegar til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytanda. Þá taldi Neytendastofa að með birtingu fullyrðinga um virkni NatPat plástra hafi félagið haldið því ranglega fram að vörurnar gætu læknað sjúkleika eða röskun á líffærastarfsemi.

Taldi stofnunin hæfilegt að sekta félagið um 100.000 kr. vegna brotanna.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA