Fara yfir á efnisvæði

Leiðbeiningar Neytendastofu fyrir gjaldskyld bílastæði

09.01.2026

Fréttamynd

Neytendastofa hefur gefið út leiðbeiningar fyrir gjaldskyld bílastæði. Leiðbeiningarnar byggja á lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og ákvörðunum Neytendastofu.

Töluverð vinna hefur verið unnin hjá Neytendastofu og í atvinnuvegaráðuneytinu vegna gjaldskyldu á bílastæðum og er útgáfa leiðbeininganna liður í því. Þannig hefur Neytendastofa tekið ákvarðanir í fimm málum vegna upplýsinga til neytenda og eru önnur mál til meðferðar. Þá kynnti Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra fleiri fyrirliggjandi aðgerðir vegna málsins á morgunverðarfundi ráðuneytisins sem haldinn var 8. janúar. Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu, og Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, héldu einnig erindi á fundinum. Á vef stjórnarráðsins má lesa nánar um efni fundarins og þær aðgerðir sem ráðherra kynnti. 

Útgangspunktur leiðbeininganna er að veita á einum stað upplýsingar um þær kröfur sem Neytendastofa hefur með ákvörðunum gert til merkinga á gjaldskyldum bílastæðum. Þannig er í leiðbeiningunum fjallað um hvaða upplýsingar eru svo mikilvægar fyrir neytendur að þær skuli veittar með skýrum og áberandi hætti áður en neytandi verður bundinn af samningi. Skortur á fullnægjandi upplýsingagjöf felur í sér villandi viðskiptahætti sem brjóta gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Leiðbeiningarnar má nálgast hér.

TIL BAKA