Tal sektað um 7,5 milljónir
Neytendastofa hefur sektað Tal um 7,5 milljónir kr. fyrir brot á lögum og eldri ákvörðunum Neytendastofu.
Síminn kvartaði til Neytendastofu yfir auglýsingum Tals um Tal Tromp af því félagið taldi auglýsingarnar ósanngjarnar gagnvart keppinautum og villandi gagnvart neytendum. Í þær vantaði ýmsar upplýsingar og fram kæmu fullyrðingar sem ekki væru réttar. Þá væri notast við orðið „frítt“.
Neytendastofa féllst á það með Símanum að Tal hafi brotið gegn lögum um viðskiptahætti og markaðssetningu í sex liðum og því var um nokkuð víðtækt brot að ræða. Brotin fólust m.a. í því að notast við orðið „frítt“ þegar greiða þurfi fyrir aðra þjónustu til þess að fá þá þjónustu sem sögð er „frí“. Neytendastofa hafði tvisvar áður tekið á notkun Tals á orðinu. Í fyrra skiptið var Tal bönnuð notkun á orðinu og í seinna skiptið sektað fyrir sambærilegt brot. Brotin fólust einnig í því að kynna með almennum hætti að neytendur geti lækkað fjarskiptakostnað með því að flytja viðskipti sín yfir til Tal án þess að taka fram að einungis sé átt við kostnað við mánaðargjöld en ekki notkun. Neytendastofa hafði áður bannað sambærilegar auglýsingar Tals.
Tal var bannað að viðhafa umrædda viðskiptahætti og gert að greiða 7,5 milljónir í stjórnvaldssekt fyrir að brjóta eldri ákvarðanir Neytendastofu.
Ákvörðun nr. 23/2012 má lesa í heild sinni hér