Fara yfir á efnisvæði

Auglýsing Morgunblaðsins um lestíma og dreifingu bönnuð

17.05.2011

365 miðlar kvörtuðu til Neytendastofu yfir auglýsingum Morgunblaðsins þar sem borinn var saman lestími og dreifing á Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Kvörtunin var nokkuð víðtæk og gerðar ýmsar athugasemdir við auglýsingarnar. Morgunblaðið hafnaði því að auglýsingarnar væru villandi eða ósanngjarnar eða að þær brytu á nokkurn hátt gegn lögum nr. 57/2005, eins og 365 miðlar héldu fram.

Neytendastofa hefur fjallað um kvörtunina og telur stofnunin að Morgunblaðið hafi brotið gegn lögum nr. 57/2005 með því í fyrsta lagi að fullyrða að Fréttablaðinu sé aðeins dreift inn á heimili á hluta höfuðborgarsvæðisins og á Akureyri. Í öðru lagi með því að fullyrða að fólk verji stuttum tíma í að lesa Fréttablaðið, en mun lengri tíma í að lesa Morgunblaðið. Í þriðja lagi með því að bera saman heildarlestrartíma sex tölublaða Fréttablaðsins og sjö tölublaða Morgunblaðsins. Þá telur Neytendastofa, í fjórða lagi, að Morgunblaðið hafa brotið gegn lögunum með villandi framsetningu á hraðabreytingum í sjónvarpsauglýsingum sem ætlað var að sýna mun á heildarlestíma Fréttablaðsins og Morgunblaðsins.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA