Vefsíðurnar Gjafir.com og Treyjur.com
Neytendastofu bárust á árunum 2010 og 2011 fjöldi ábendinga og kvartana frá neytendum vegna netverslunar sem hýst eru undir lénunum treyjur.com og gjafir.com. Ábendingar snéru aðallega að því að í kjölfar kaupa hafi ekki verið mögulegt að ná sambandi við fyrirtækið, m.a. til þess að fá afhenta vöru sem greitt hefur verið fyrir eða vegna kvartana yfir galla á vöru.
Neytendastofa bendi þeim tilmælum til rekstraraðila netverslunarinnar að koma upplýsingum á vefsíðunum í rétt horf miðað við gildandi lög. Aðilar sem bjóða vörur eða þjónustu til sölu á netinu eiga að hafa aðgengilegar upplýsingar á vefsíðunni um það hver rekstraraðili þeirra er og hvar neytendur geta komist í samband við hann. Ekki var brugðist við tilmælum stofnunarinnar um lagfæringar og því hefur Neytendastofa nú tekið formlega ákvörðun í málinu.
Í niðurstöðu ákvörðunar Neytendastofu kemur fram að rekstraraðili umræddrar vefverslunar hafi brotið gegn lögum nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og lögum nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga, þar sem ekki komu fram upplýsingar um rekstraraðila á umræddum vefsíðum. Rekstraraðilanum var veittur frestur í sjö daga til að tilgreina nafn, heimilisfang og allar þær upplýsingar sem eiga við um starfsemina á vefsíðunum gjafir.com og treyjur.com.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.