Seðilgjöld - niðurstöður
Með fréttatilkynningu nr. 7/2008 beindi viðskiptaráðherra tilmælum til fjármálafyrirtækja um afnám innheimtu seðilgjalda og sambærilegra krafna. Í kjölfar hennar fól viðskiptaráðherra Neytendastofu að gera úttekt á því í hvaða mæli opinberar stofnanir og fyrirtæki væru að innheimta seðilgjöld eða önnur sambærileg gjöld. Könnun Neytendastofu var send 278 opinberum stofnunum og fyrirtækjum og bárust stofnuninni 246 svör. Af þeim eru 181 sem senda kröfur til innheimtu og þar af 44 sem leggja á seðilgjald eða aðra sambærilega kröfu. Neytendastofa óskaði eftir upplýsingum um hvort fyrirhugað væri að fella niður eða breyta gjaldtökunni í kjölfar tilmæla viðskiptaráðherra og hugðust 19 opinberar stofnanir eða fyrirtæki fella gjaldið niður. Neytendastofa hefur kynnt niðurstöður könnunarinnar fyrir viðskiptaráðherra og hefur hann gefið út fréttatilkynningu með helstu niðurstöðum hennar.
Skýrslu Neytendastofu með niðurstöðum könnunarinnar má lesa hér.
Fréttatilkynningu viðskiptaráðherra vegna niðurstöðu könnunarinnar má lesa hér.