Hárgreiðslustofur sektaðar vegna verðmerkinga
Verðmerkingaeftirlit Neytendastofu gerði könnun á ástandi verðmerkinga hjá hárgreiðslustofum og hefur stofnunin í kjölfarið sektar þrjár þeirra fyrir slakar verðmerkingar.
Hárgreiðslustofum ber skylda til að verðmerkja allar söluvörur sínar. Auk þess eiga þær að hafa verðlista sýnilegan yfir þá þjónustu sem þær bjóða neytendum. Þegar þjónustuliðir eru mjög margir er heimilt að sýna eingöngu verðlista yfir helstu eða algengustu þjónustuna en heildarverðlisti verður samt sem áður alltaf að vera til staðar óski neytendur eftir að sjá hann.
Hárgreiðslustofurnar Andromeda, Rauðhetta og úlfurinn og Zoo.is höfðu hvorki sýnilegan heildarverðlista né verðlista yfir helstu þjónustu sem boðið er upp á. Þá voru söluvörur hjá Rauðhettu og úlfinum og Zoo.is ekki verðmerktar. Hárgreiðslustofunum var öllum gefinn kostur á að koma verðmerkingum sínum í lag en þar sem þær fóru ekki að tilmælum Neytendastofu hefur stofnunin lagt á þær sektir.
Andromedu er gert að greiða 50.000 kr. sekt en Rauðhettu og úlfinum og Zoo.is er gert að greiða 100.000 kr. sekt.
Ákvarðanirnar má lesa hér nr. 11/2009, 12/2009 og 13/2009.