Fara yfir á efnisvæði

Ákvæði í áskriftarsamningi Stöðvar2 brot á lögum

20.11.2009

Neytendastofa hefur með ákvörðun sinni, nr. 31/2009, gert 365 miðlum ehf. að breyta áskriftarskilmálum sínum vegna Stöðvar 2.

Í ákvörðun Neytendastofu kemur fram að skilmálar sem heimili þjónustuveitendum almennt að gera einhliða  breytingar á skilmálum geti talist ósanngjarnir. Auk þess séu skilmálar þar sem heimilt er að breyta verði án þess að neytandanum sé kynnt fyrirhugðu breyting og gefinn kostur á að slíta samningi ósanngjarnir.

Með ákvörðuninni er 365 miðlum gert að tilkynna áskrifendum sínum með fullnægjandi og sannanlegum hætti ef gerðar eru breytingar á skilmálum eða breytingar á verði þjónustunnar. Í núverandi skilmálunum er kveðið á um að 365 miðlum sé heimilt að gera breytingar á skilmálunum og að það verði tilkynnt á vefsíðunni stod2.is. Neytendastofa telur í þessu máli það ekki vera fullnægjandi tilkynningu. Vilji áskrifandi ekki sætta sig við breytinguna geti hann, skv. ákvörðuninni, slitið samningi eða sagt þjónustunni upp jafnvel þó að áskriftartímabili sé ekki lokið.

Ákvörðunin hefur mikið fordæmisgildi þar sem umfjöllun hennar á við um alla áskriftarskilmála gagnvart neytendum. Neytendastofa hvetur neytendur því til að kynna sér ákvörðunina og fylgjast með breytingum á þjónustu sem þeir eru í áskrift að og hvernig að staðið er að tilkynningum til þeirra um verð og aðra skilmála.

 Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA