Álit neytendastofnana á Norðurlöndum um markaðssetningu á samskipamiðlum
Neytendastofa og aðrar neytendastofnanir á Norðurlöndum unnu á árinu 2010 álit um verslun og markaðssetningu á internetinu þar sem lýst er almennum reglum og lögmálum sem gilda um markaðssetninguna (sjá á ensku hér: http://www.consumerombudsman.dk/Regulatory-framework/dcoguides/Internet-Commerce-and-Marketing).
Nú hefur verið unnin viðbót við það þar sem sérstaklega er fjallað um samskiptamiðla, s.s. Facebook.
Ekki er um að ræða nýjar reglur heldur eru dregin saman ákvæði úr lögum og reglum um markaðssetningu sem stofnanirnar telja að hafa þurfi sérstaklega í huga við markaðssetningu á samskiptamiðlum. Ákvæðin eru sett upp með skýringum og vísunum til samskiptamiðlanna þar sem það á við.
Í fyrsta lagi er fjallað um það að þar sem samskiptamiðlarnir séu fyrst og fremst taldir vettvangur fyrir einstaklinga til að deila upplýsingum verði fyrirtæki að gæta sérstaklega vel að því að greinilegt sé hvenær um markaðssetningu eða auglýsingu er að ræða.
Í öðru lagi er tekið á markaðssetningu gagnvart börnum og ungmennum. Við slíka markaðssetningu þurfa fyrirtækin að móta markaðssetningu sína þannig að gætt sé sérstaklega að trúgirni, reynsluleysi og skorti á gagnrýnni hugsum hjá börnum. Auk þess er um það fjallað að ekki megi skora beint á börn eða hvetja þau til að kaupa eða fá foreldra sína eða aðra fullorðna til að kaupa vörur.
Í þriðja í lagi er fjallað um borðaauglýsingar, s.k. banner. Upplýsingar í slíkum auglýsingum eru gjarnan mjög takmarkaðar vegna stærðar þeirra svo gæta þarf að því að þær upplýsingar sem fram koma séu ekki villandi og að auglýsingarnar verði ekki villandi vegna þess að mikilvægar upplýsingar eru ekki tilteknar.
Álitið má nálgast í íslenskri þýðingu hér.