Neytendastofa sektar BYKO fyrir brot gegn útsölureglum
Neytendastofa hefur lagt 10.000.000 kr. stjórnvaldssekt á BYKO fyrir að brjóta gegn þeim lagaákvæðum og reglum sem gilda um útsölur.
Fyrirtækið auglýsti s.l. sumar 20% afslátt af allri útimálningu og viðarvörn samhliða því sem kynntar voru nokkrar tegundir af slíkri málningu. Neytendastofa taldi tilboðsauglýsinguna villandi og til þess fallna að blekkja neytendur og hafa áhrif á fjárhagslega hegðun þeirra þar sem tilboðið átti ekki við um þær vörur sem auglýstar voru samhliða tilboðinu. Þá kom fram í skýringum BYKO að verð á útimálningu og viðarvörn hafi þegar verið lækkað og því lækkaði það verð sem vörurnar voru verðmerktar á í verslunum BYKO ekki um 20% eins og auglýsingin gaf til kynna.
Neytendastofa telur brotið mjög alvarlegt. Að teknu tilliti til þess og sölu á vörunum á auglýsingatímabilinu lagði Neytendastofa, 10.000.000 kr. stjórnvaldssekt á fyrirtækið, sem er hæsta lögleyfða stjórnvaldssekt sem Neytendastofa getur beitt.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér