Hagkaup gert að birta prósentuhlutfall afsláttar
Neytendastofa hefur tekið ákvörðun um auglýsingar Hagkaups á Tax Free dögum í tilefni ábendinga og fyrirspurna frá neytendum. Ábendingar snéru fyrst og fremst að því að neytendur voru ósáttir við að fá einungis 20,32% afslátt þar sem þeir töldu sig eiga að fá 25,5% afslátt sem er prósentuhlutfall virðisaukaskatts auk þess sem neytendur gerðu athugsemdir við notkun hugtaksins Tax Free.
Í ákvörðuninni kemur fram að þrátt fyrir að ætla megi að flestir neytendur séu meðvitaðir um prósentuhlutfall virðisaukaskatts virðist þeir oft ekki gera sér grein fyrir því hvernig reikna skuli virðisaukaskatt af verði vöru. Í ljósi þess og þeirrar afdráttarlausu og skýru skyldu til að tilgreina prósentuhlutfall afsláttar taldi Neytendastofa nauðsynlegt að þess sé getið bæði á sölustað og í auglýsingum fyrir Tax Free að afslátturinn nemi 20,32%. Neytendastofa gerði aftur á móti ekki athugasemdir við notkun hugtaksins Tax Free.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.