Fara yfir á efnisvæði

Könnun á umfangi slysa og óhappa af völdum rafmagns hjá fagmönnum á rafmagnssviði

16.03.2006

Á síðasta ári lét Neytendastofa, í samráði við Samorku, SART og Rafiðnaðarsamband Íslands, rannsóknarfyrirtækið IMG Gallup kanna tíðni rafmagnsslysa og óhappa hjá fagmönnum á rafmagnssviði. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar meðal fagmanna á rafmagnssviði á hinum Norðurlöndunum.

 

Markmiðið með könnuninni er fyrst og fremst að Neytendastofa hafi betri yfirsýn yfir slys eða óhöpp af völdum rafmagns hér á landi enda berast stofnuninni einungis upplýsingar um alvarlegustu rafmagnsslysin. Könnunin var símakönnun og var úrtakið 655 fagmenn á rafmagnssviði og var svarhlutfallið 67,8%.

 

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru að tæp 67% svarenda hafa aldrei orðið fyrir slysi eða óhappi í tengslum við rafmagn. Af þeim sem höfðu orðið fyrir óhappi eða slysi af völdum rafmagns taldi yfirgnæfandi meirihluti svarenda að ástæðu slyssins eða óhappsins mætti rekja til þeirra eigin aðgæsluleysis, fljótfærni, vanrækslu o.þ.h. og einungis 22,5% þeirra höfðu leitað til læknis eða heilsugæslu.

 

Skýrsluna í heild má nálgast hér.

TIL BAKA