Fara yfir á efnisvæði

MS bannað að auglýsa Hleðslu sem vinsælasta próteindrykk landsins

16.05.2011

Vífilfell kvartaði til Neytendastofu yfir auglýsingum og upplýsingum á umbúðum á próteindrykknum Hleðslu, sem Mjólkursamsalan framleiðir og selur. Vífilfell framleiðir og selur próteindrykkinn Hámark og því eru Vífilfell og Mjólkursamsalan keppinautar á markaði.

Kvörtun Vífilfells snéri í fyrsta lagi að upplýsingum á umbúðum Hleðslu. Þar var fullyrt að drykkurinn væri án hvíts sykurs, án sætuefna og að hann innihéldi 100% hágæða mysuprótein. Þá var kvartað yfir fullyrðingunni „Hreyfing – Hleðsla – Árangur“ sem einnig kemur fram á umbúðum vörunnar. Þessum hluta kvörtunarinnar var vísað frá meðferð Neytendastofu þar sem næringar- og heilsufullyrðingar matvæla falla undir reglugerð 406/2010 sem er undir eftirliti Matvælastofnunar.

Í öðru lagi snéri kvörtun Vífilfells að fullyrðingunni „Vinsælasti próteindrykkur landsins“ sem fram kemur í auglýsingum MS. Neytendastofa taldi MS ekki hafa sannað fullyrðinguna með fullnægjandi hætti þar sem markaðshlutdeild Hleðslu var bara meiri en markaðshlutdeild Hámarks á hluta tímabilsins. Auk þess var mismunur í markaðshlutdeild var svo lítill að Neytendastofa taldi það ekki geta staðið til sönnur á fullyrðingu um vinsældir.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA