Áfrýjunarnefnd neytendamála staðfestir ákvörðun Neytendastofu
Neytendastofu barst kvörtun frá neytenda vegna ferðar sem hann hafði keypt með Icelandair. Neytandinn bókaði þriggja nátta ferð til Seattle af vefsíðu Icelandair og greiddi fyrir 57.650- kr. Síðar kom tilkynning frá Icelandair þess efnis að verð ferðarinnar hafi verið rangt. Rétt verð væri 91.150- kr. og með vísan til skilmála væri Icelandair heimilt að leiðrétta mistökin. Því ætti neytandinn kost á annað hvort að hætta við ferðina eða greiða mismuninn.
Neytendastofa afgreiddi máli með bréfi, dags. 7. október 2009, þar sem stofnunin taldi mistökin ekki vera svo augljós að neytandanum hafi mátt vera þau ljós. Við það mat leit stofnunin m.a. til þess að um var að ræða fyrstu ferðir Icelandair til Seattle, ferðin var fundin á tilboðsvef Icelandair og verð hennar var ekki í ósamræmi við aðrar svipaðar ferðir. Neytendastofa taldi Icelandair því ekki hafa verið heimilt að krefja neytandann um greiðslu sem svaraði mismuni á réttu verði ferðarinnar og því verði sem neytandinn keypti ferðina á.
Icelandair kærði ákvörðun Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála sem staðfest hefur ákvörðun stofnunarinnar.
Sjá úrskurð áfrýjunarnefndar neytendamála nr. 12/2009