Skilmálar á bílaláni Avant bannaðir
04.05.2010
Neytendastofa hefur tekið ákvörðun um að skilmálar á bílaláni Avant uppfylli ekki skilyrði laga um neytendalán. Lánið, sem er í íslenskum krónum, var með breytilegum vöxtum og kom fram í skilmálum að vextirnir væru tilgreindir í vaxtaskrá Avant. Samkvæmt lögum um neytendalán á að greina frá því í skilmálum með hvaða hætti og við hvaða aðstæður vextir geti breyst þegar lán bera breytilega vexti. Avant hélt því fram í málinu að heimilt væri að veita upplýsingarnar munnlega eftir að samningsgerð lauk og að beiðni lántaka. Neytendastofa féllst ekki á þau rök Avant og taldi skilmálana ekki uppfylla skilyrði laganna. Stofnunin bannaði því notkun þeirra.
Ákvörðun Neytendastofu nr. 21/2010 má lesa í heild sinni hér.