Fara yfir á efnisvæði

Fullyrðingin „Nr. 1 í innheimtu slysabóta“ bönnuð

05.09.2012

Neytendastofa hefur bannað Tort að birta auglýsingar með fullyrðingunni „Nr. 1 í innheimtu slysabóta“ eftir kvörtun frá keppinaut fyrirtækisins.

Neytendastofu barst kvörtun yfir fullyrðingunni þar sem fram kom að hún gæfi til kynna að Tort væri fremst og best í innheimtu slysabóta. Tort hafnaði því og sagði fullyrðinguna vísa til þess að Tort væri fyrsta lögfræðistofan sem sérhæfði sig í innheimtu slysabóta.

Í niðurstöðum ákvörðunarinnar segir að sama hvor skilningurinn sé lagður í fullyrðinguna þá telji Neytendastofa hana fela í sér skilaboð um hæfni, aðstæður og stöðu Tort á markaði. Lög gera ráð fyrir að fyrirtæki geti sannað allar fullyrðingar sínar en Tort færði hvorki fram sönnun fyrir því að félagið hafi verið það fyrsta sem sérhæfði sig í innheimtu slysabóta né fyrir því að félagið væri fremst og best í slíkri innheimtu. Því var Tort bannað að birta fullyrðinguna.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.


 

TIL BAKA