Viðskiptahættir Express ferða brot á lögum um alferðir
Neytendasamtökin kvörtuðu til Neytendastofu vegna einstaklings sem leitað hafi aðstoðar samtakanna vegna þriggja nátta pakkaferðar með Express ferðum ehf. sem er í eigu Iceland Express ehf. Vegna eldgoss í Eyjafjallajökli var flugi aflýst og féll ferðin því niður.
Neytandinn fór fram á endurgreiðslu ferðarinnar en Express ferðir töldu að farþegar ættu ekki rétt á skaðabótum væri ferð felld niður vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna. Kröfu neytandans um endurgreiðslu ferðarinnar var því hafnað en honum boðin endurgreiðsla flugs eða sambærileg ferð gegn milligreiðslu 25.000 kr.
Að mati Neytendasamtakanna byggist túlkun fyrirtækisins á lögum um alferðir á misskilningi, einkum varðandi muninn á skaðabótum og endurgreiðslu.
Í niðurstöðu Neytendastofu kemur fram að í lögum um alferðir sé gerður skýr greinamunur á vanefndarúrræðum neytanda. Riftun og skaðabætur eru tvö aðskilin vanefndarúrræði og verður að gera á þeim skýran greinarmun. Annars vegar sé um að ræða rétt til endurgreiðslu og hins vegar rétt til skaðabóta verði neytandi fyrir tjóni sökum aflýsingar. Sé ferð aflýst eins og í kvörtun Neytendasamtakanna á neytandinn rétt á endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem hann hefur greitt fyrir ferðina, óháð því hver ástæða aflýsingarinnar er.
Neytendastofa taldi að Express ferðir ehf., hefði með því að hafna farkaupa um endurgreiðslu fyrir pakkaferð vegna aflýsingar í tilefni ófyrirsjáanlegra aðstæðna brotið gegn lögum um alferðir. Lagði Neytendastofu fyrir Express ferðir að láta af slíkum viðskiptaháttum.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér