Fara yfir á efnisvæði

Viðskiptahættir Landsbankans og Arion við sölu á viðbótarlífeyrissparnaði

24.01.2011

Allianz Ísland hf. kvartaði til Neytendastofu yfir viðskiptaháttum Landsbankans og Arion banka við sölu á viðbótarlífeyrissparnaði. Neytendastofa hefur lokið málunum með ákvörðunum nr. 1/2011 og nr. 2/2011 þar sem stofnunin taldi Landsbankann og Arion hafa brotið gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Kvartanirnar sneru að því að bankarnir væri að notast við úrelt útreikniforrit frá Allianz til þess að kynna fyrir viðskiptavinum sínum, eða væntanlegum viðskiptavinum, hver kostnaðurinn væri við þjónustu Allianz samanborið við þjónustu sína. Auk þess hafi bankarnir sent út greinargerð sem ráðgjafafyrirtæki hafi unnið fyrir Kaupþing og fjallaði um ágalla á kynningarefni Allianz. Kynningarefninu hafi hins vegar verið breytt og því ættu athugasemdirnar, sem fram kæmu í greinargerðinni, ekki lengur við.

Í niðurstöðum ákvörðunarinnar er um það fjallað að á auglýsanda hvílir mjög rík skylda til að gæta að því að allar forsendur og fullyrðingar séu réttar. Landsbankanum og Arion banka hafi því borið að ganga úr skugga um að útreikningar á sparnaði Allianz væru réttir áður en þeir voru sendir út. Að sama skapi hefðu bankarnir átt að kynna sér efni greinargerðarinnar m.t.t. kynningarefnis Allianz. Tilgangurinn með því að senda greinargerðina gæti ekki verið annar en sá að kasta rýrð á Allianz og því væri ósanngjarnt gagnvart Allianz að senda hana út, þar sem upplýsingarnar voru ekki viðeigandi lengur.

TIL BAKA