Fara yfir á efnisvæði

Hvernig er mælieiningarverð fengið?

Til þess að mælieiningarverð villi ekki um fyrir neytendum eða geri framleiðendum óleik þurfa kaupmenn að nota þrjár mismunandi aðferðir við að reikna út mælieiningarverð og fer aðferðin eftir því um hvaða vörur er að ræða.

Í aðferð eitt er nettóinnihaldi vörunnar þ.e. varan að frádregnum umbúðum deilt í smásöluverðið. (Í fyrsta flokknum eru vörur þar sem nettóinnihald vörunnar er notað til þess að reikna út mælieiningarverðið) Langflestar vörur í matvöruverslunum tilheyra þessum flokki. Sumar þeirra eru seldar miðað við þyngd en aðrar miðað við rúmmál. Dæmi um vörur sem seldar eru miðað við þyngd eru ferskir ávextir, grænmeti, kjöt, fiskur, ostar, skyr og smjör. Þá má nefna kornafurðir og brauð. Dæmi um vörur sem seldar eru eftir rúmmáli eru mjólk, gosdrykkir, súrmjólk, ís, og hreingerningar- og uppþvottalögur.

Í öðru lagi þegar matvæli eru í vökva svo sem vatni, legi eða soði á að gefa mælieiningarverð miðað við þyngd í föstu formi, þ.e. þyngd fyrir utan vökva. Þá er þurrvigtinni deilt í smásöluverðið. Dæmi um vörur í þessum flokki eru niðursoðnir ávextir, ber, grænmeti í vatni, sykurlegi, edikslegi o.s.frv., marineruð síld og niðursoðnar fiskbollur.

Að síðustu eru vörur sem þarfnast vökva, krydds eða annars sem hefur lítil eða engin áhrif á endanlegt verð vörunnar. Mælieiningarverð fyrir vörur í þessum flokki er fengið þannig að þyngd (miðað við kíló eða lítra þegar varan er tilbúin til neyslu) er deilt í smásöluverðið. Við útreikning er miðað við fyrirmæli framleiðanda hvernig eigi að blanda t.d. vatninu saman við vöruna. Dæmi um vöru í þessum flokki er ávaxtaþykkni.
TIL BAKA