Fara yfir á efnisvæði
Samkvæmt 16. gr. c. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 er óheimilt í atvinnustarfsemi að afla sér eða reyna að afla sér með ótilhlýðilegum hætti upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmálum starfseminnar. Sá sem fengið hefur vitneskju um eða umráð yfir atvinnuleyndarmálum á réttmætan hátt í starfi sínu fyrir annan eða í félagi við annan má ekki án heimildar veita upplýsingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál. Bannið gildir í þrjú ár frá því að starfi er lokið eða samningi slitið. Þeim sem vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti hefur verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingum, uppskriftum, líkönum eða þess háttar er óheimilt að hagnýta sér eða veita öðrum afnot af slíku án sérstakrar heimildar.

Neytendastofa hefur tekið nokkrar ákvarðanir er varða vernd atvinnuleyndarmála. Hugtakið atvinnuleyndarmál nær jafnt til rekstrarleyndarmála og verslunar- eða viðskiptaleyndarmála. Úrlausn slíkra mála er afar atviksbundin en almennt má segja að almenn þekking og reynsla sem starfsmaður hagnýtir við störf sín geti ekki talist til atvinnuleyndarmála heldur verði að liggja fyrir þekking sem sé sérstaklega bundin við viðkomandi rekstur og skipti máli fyrir starfsemina. Þá er gerð sú krafa að krafa um leynd hafi verið látin í ljós af fyrirtækinu eða að það liggi í hlutarins eðli.

Til nánari útskýringar má benda á nokkrar leiðandi úrlausnir áfrýjunarnefndar neytendamála í slíkum málum:

    •     Úrskurður í máli nr. 5/2009, kæra Halldórs Guðmundssonar á ákvörðun Neytendastofu nr. 5/2009
    •     Úrskurður í máli nr. 7/2012, kæra Einars Matthíassonar á ákvörðun Neytendastofu nr. 14/2012
    •     Úrskurður í máli nr. 10/2012, kæra Eddu Bjarnadóttur á ákvörðun Neytendastofu nr. 21/2012