Fara yfir á efnisvæði

Neytendalán

Neytendalán eru lán samkvæmt lögum nr. 33/2013 sem neytendur taka hjá einhverjum sem hefur atvinnu af því að veita lán. Þetta getur t.d. verið skuldabréf, bílasamningur, yfirdráttarheimild, raðgreiðslusamningur eða smálán. Undanskilin lögunum eru þó t.d. fasteignalán, lán frá LÍN og lán sem bera engan kostnað.

Lög um neytendalán veita neytendum ákveðna vernd og tryggja þeim margvíslegar upplýsingar áður en lánssamningur er gerður. Lögin fjalla ekki um það hvaða lán má, eða má ekki, veita heldur hvernig skuli staðið að lánveitingunni og hvaða upplýsingum neytendum eru veittar.

Gildissvið laganna
Neytendalán eru í grunninn öll lán sem neytendur taka hjá einhverjum sem hefur atvinnu af því að veita lán. Nokkrar lánategundir eru þó undanskildar:

    • fasteignalán skv. lögum nr. 118/2016
    • lán sem eru til styttri tíma en þriggja mánaða og bera ekki vexti eða hafa lægri árlega hlutfallstölu kostnaðar en meðaltal innlánsvaxta skv. Seðlabanka Íslands,
    • lán sem bera enga vexti eða kostnað,
    • lán sem vinnuveitandi veitir starfsmönnum vaxtalaust eða með lægri árlega hlutfallstölu kostnaðar en meðaltal innlánsvaxta skv. Seðlabanka Íslands,
    • leigusamningar, en þó ekki kaup-, fjármögnunar- og rekstarleigusamningar,
    • yfirdráttarheimild sem þarf að greiða til baka á innan við einum mánuði,
    • lán sem veitt eru tilteknum hópum með almennahagsmuni í huga, s.s. námslán frá LÍN.

Hægt er að hafa samband við Neytendastofu í gegnum rafrænt kerfi stofnunarinnar, með því að senda tölvupóst á póstfangið: postur@neytendastofa.is eða í síma 510-1100 á símatíma, milli 9 og 12 alla virka daga.

Eftirlit með neytendalánum
Neytendastofa hefur eftirlit með lögum um neytendalán. Í því felst að stofnunin fylgist með því hvort lánveitendur séu að virða réttindi neytenda samkvæmt lögunum. Sem eftirlitsstofnun getur Neytendastofa því t.d. farið yfir hvort lánveitandi hafi veitt fullnægjandi upplýsingar um lánið og tekið á því gagnvart lánveitandanum ef það hefur ekki verið gert. Neytendastofa getur hins vegar ekki fjallað um einkaréttarlegan ágreining. Í tilfelli sem þessu gæti stofnunin af þeim sökum ekki sagt til um það hvaða afleiðingar það hafi fyrir einstaka lánssamning ef neytandanum voru ekki veittar fullnægjandi upplýsingar.

Neytendastofa getur lagt sektir á lánveitendur sem brjóta gegn lögunum.

TIL BAKA