Fara yfir á efnisvæði

Skráningarskylda

Þeir lánveitendur og lánamiðlarar sem bjóða neytendalán skulu hafa skráningu hjá Neytendastofu frá 1. mars 2020. Þetta á ekki við um þá sem hafa heimild til lánveitinga til neytenda samkvæmt sérlögum eða eru eftirlitsskyldir aðilar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Neytendastofa skal samkvæmt ákvæðum laga um neytendalán neita skráningu ef stjórnarmenn eða framkvæmdastjóri skráningarskylds aðila hafa ekki forræði á búi sínu. Einnig skal neita skráningu ef sömu aðilar hafa á síðustu þremur árum hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl., ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda eða, eftir því sem við á, þeim sérlögum sem gilda um viðkomandi aðila. Þá skal neita um skráningu ef skráningarskyldur aðili uppfyllir ekki kröfur laga um neytendalán.

Tilkynningu um skráningu skulu fylgja gögn sem sýna fram á hverjir eiga sæti í stjórn fyrirtækis, að þeir aðilar hafi forræði yfir búi sínu og hafi ekki hlotið dóm á síðustu þremur árum eins og tiltekið er að ofan. Búsforræðisvottorð er hægt að nálgast hjá viðeigandi Héraðsdómstól og sakavottorð hjá sýslumanni. Tilkynningu skal senda í gegnum mínar síður á heimasíðu Neytendastofu (https://rafraen.neytendastofa.is/#/).

Listi yfir nöfn, kennitölu og heimilisfang skráðra lánveitenda og lánamiðlara sem uppfylla skilyrði laganna er aðgengilegur hér.

Fyrirtæki sem hlotið hefur skráningu hjá Neytendastofu verður fellt af skrá ef ofangreind skilyrði eru ekki lengur uppfyllt.

Samkvæmt lögunum getur Neytendastofa lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem veita neytendalán án skráningar skv. ákvæðum laga um neytendalán.

Skráðir lánveitendur og lánamiðlarar eru tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Á vef fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og á vef Skattsins má finna nánari upplýsingar um hvaða kröfur eru gerðar til tilkynningarskyldra aðila.


TIL BAKA