Fara yfir á efnisvæði

Fyrir samningsgerð

Neytendur eiga rétt á að fá ýmsar upplýsingar áður en lánssamningur er gerður. Þessar upplýsingar á að veita á stöðluðu eyðublaði sem á að afhenda á pappír eða öðrum varanlegum miðil.
Þegar veitt er lán sem kallar á greiðslumat skal lánveitandi til viðbótar við staðlaða eyðublaðið á lánveitandi að veita neytendum upplýsingar um þróun höfuðstóls, greiðslubyrði og gengisþróun erlendra gjaldmiðla. Neytendastofa birtir hér á heimasíðu stofnunarinnar þessar upplýsingar. Lánveitandinn á að fara yfir upplýsingarnar með neytanda og útskýra þær fyrir honum ef þörf er á. Þar að auki á að veita neytandanum upplýsingar um þróun verðlags og vaxta og ef það lán sem neytandinn hyggst taka er verðtryggt á lánveitandi, á þessum tímapunkti, að láta hann hafa niðurgreiðslutöflu (greiðsluáætlun) þar sem búið er að reikna lánið með tilliti til meðalársverðbólgu síðustu 10 ára.

Þessar upplýsingar á að afhenda neytandanum með eðlilegum fyrirvara svo neytandinn hafi kost á að kynna sér þær og jafnvel bera saman við lánstilboð frá öðrum lánveitanda, áður en hann tekur ákvörðun um að taka lánið.

Ef um er að ræða yfirdráttarheimild sem þarf að greiða til baka innan þriggja mánaða eru ákvæði um upplýsingaskyldu ekki alveg jafn ströng. Veita þarf neytandanum allar nauðsynlegar upplýsingar um samninginn en þær þurfa ekki að vera á stöðluðu eyðublaði. Ef gengið er frá slíkum samningi í gegnum síma og heimildin veitt þegar í stað á neytandinn að fá lýsingu á helstu atriðum samningsins.

Mat á greiðslugetu
Áður en lánssamningur er gerður á lánveitandi að gera lánshæfismat eða greiðslumat á neytandanum. Lánshæfismat á að gera ef lánið er lægra en 2.000.000 kr. en greiðslumat ef lánið er hærra. Ef hjón eða sambúðafólk tekur lánið er miðað við 4.000.000 kr. Þessar fjárhæðir uppreiknast árlega samkvæmt breytingu á vísitölu neysluverðs. Lánveitanda ber alltaf að framkvæma greiðslumat þegar um erlent lán eða lán tengt erlendum gjaldmili er að ræða, óháð lánsfjárhæð.

Lánshæfismati er ætlað að meta líkurnar á því hvort neytandinn geti efnt lánssamninginn og er byggt á viðskiptasögu lánveitanda og neytanda eða á upplýsingum úr gagnagrunni um fjárhagsmálefni og lánstraust. Greiðslumat er hins vegar útreikningur á greiðslugetu neytandans og því þarf hann að afhenda láveitanda ýmis gögn, s.s. staðfest afrit af síðasta skattframtali, staðfestingu á tekjum síðustu þriggja mánaða, staðfestingu á eftirstöðvum og greiðslubyrði allra skulda, þinglýsingarvottorð á fasteignum sem hann á, upplýsingar um húsaleigu þar sem það á við og önnur föst gjöld.
Í reglugerð er fjallað um hvernig lánshæfis- og greiðslumat er unnið til þess að tryggja að þau séu eins gerð hjá öllum lánveitendum.

TIL BAKA