Fara yfir á efnisvæði

Fasteignalán til neytenda

Fasteignalán til neytenda er samkvæmt lögum nr. 118/2016 lán sem veitt er einstaklingi ótengt atvinnustarfsemi hans, af einhverjum sem hefur atvinnu af því að veita lán, og er annað hvort:

       •     tryggt með veði eða annarri tryggingu í, eða tengt, íbúðarhúsnæði
              eða
       •     tekið í þeim tilgangi að kaupa eða viðhalda eignarrétti á fasteign
Lánveitingin telst veitt í atvinnustarfsemi ef lánveitandi hefur hag af lánveitingunni, óháð því hvort lánveiting er aðal- eða aukastarfsemi lánveitanda. Þannig telst t.d. lán sem byggingaverktaki veitir kaupanda vera fasteignalán til neytenda ef kaupandi er einstaklingur sem ætlar að búa í fasteigninni og lánið er veitt til að kaupa hana eða veitt gegn veði í fasteign.
Í lögunum er fjallað um réttindi neytenda og skyldur lánveitenda, bæði gagnvart neytendum og almennar skyldur.

Eftirlit Neytendastofu
Eftirliti með lögum fasteignalán til neytenda er skipt milli Neytendastofu og Fjármálaeftirlitsins. Þannig sinnir Fjármálaeftirlitið eftirliti með ákvæðum sem snúa að innri starfsemi lánveitenda og lánamiðlara; s.s. hæfi starfsfólks, rekstrarformi, lánaráðgjöf og veðsetningarhlutföllum auk þess sem Fjármálaeftirlitið veitir starfsleyfi, þar sem við á. Nánar um eftirlit Fjármálaeftirlitsins má finna á vefsíðu þess, www.fme.is

Eftirlit Neytendastofu snýr hins vegar að samskiptum lánveitenda og neytenda. Í því felst að Neytendastofa fylgist með því hvort lánveitendur virði réttindi neytenda samkvæmt lögunum; s.s. hvort fullnægjandi upplýsingar séu veittar og hvort almenn réttindi neytenda samkvæmt lögunum séu virt. Í þessu samhengi getur Neytendastofa tekið á því gagnvart lánveitendum og lánamiðlurum ef þeir uppfylla ekki skyldur sínar. Neytendastofa getur hins vegar ekki fjallað um einkaréttarlegan ágreining. Í tilfelli sem þessu gæti stofnunin af þeim sökum ekki sagt til um það hvaða afleiðingar það hafi fyrir einstaka neytanda ef honum voru ekki veittar fullnægjandi upplýsingar.

Neytendastofa getur lagt sektir á lánveitendur og lánamiðlara sem brjóta gegn lögunum.

TIL BAKA