Gagnsæi markaðarins
Í III. kafla laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og markaðssetningu, er að finna ákvæði um gangsæi markaðarins. Aðalákvæði kaflans fjallar um skyldu fyrirtækja til að verðmerkja vörur og þjónustu. Grundvallarreglan er að allar vörur og þjónusta sem seldar eru neytendum skuli verðmerkja þannig að auðvelt sé að sjá verðmerkinguna. Ein af forsendum þess að neytendur geti fylgst með verðlagi og eflt verðskyn sitt eru verðmerkingar. Góðar verðmerkingar gefa neytendum þannig mikilvægar upplýsingar til þess að þeir geti verið virkir þátttakendur á hinum frjálsa markaði.
Skyldan til að verðmerkja á jafnt við inni í verslunum sem og í búðargluggum, á vefsíðum og annarsstaðar þar sem varan er höfð til sýnis. Verðmerkingin á að vera sýnileg og ekki má fara á milli mála til hvaða vöru hún vísar. Auk verðs eiga fyrirtæki einnig að merkja vörur sínar með einingarverði, þar sem það á við, en einingarverð er verð vöru miðað við ákveðna þyngdar- eða rúmmálseiningu.
Þar sem gagnsær markaður og réttar upplýsingar stuðla að neytendavernd eru í gildi reglur nr. 536/2011, um verðmerkingar og einingarverð við sölu á vöru, og reglur nr. 537/2011, um verðupplýsingar við sölu á þjónustu, þar sem fram koma nánari reglur um verðmerkingar.
Þá er rétt að geta þess að verð á vörum sem seldar eru neytendum skal ávallt vera endanlegt verð í íslenskum krónum með virðisaukaskatti. Ef annar kostnaður bætist við, sem af einhverjum ástæðum er óhjákvæmilegt að hafa með í verðinu, verður að taka það sérstaklega fram.