Fara yfir á efnisvæði

Íslenski þjóðfáninn í markaðssetningu

Um margra ára skeið var notkun íslenska fánans á söluvörur bönnuð. Nú hefur verið gerð breyting þar á og íslenskum framleiðendum gert kleyft að auðkenna vörur sínar með fánanum til staðfestingar þess að um íslenska vöru sé að ræða. Samhliða þessum breytingum var eftirlit með notkun fánans við markaðssetningu flutt frá forsætisráðuneytinu til Neytendastofu.

Í 12. gr. laga nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga, er fjallað um notkun á fánanum í markaðssetningu. Samkvæmt því má nota íslenska fánann á söluvörur, umbúðir þeirra og í auglýsingu ef varan uppfyllir skilyrði ákvæðisins um að vera íslensk. Samkvæmt ákvæðinu telst vara íslensk ef hún er:

    a. framleidd hér á landi úr innlendu hráefni eða
    b. framleidd hér á landi úr innfluttu hráefni að hluta eða öllu leyti, enda hafi hún hlotið nægilega aðvinnslu hérlendis.

Vara sem fellur undir b. lið telst þó ekki íslensk ef einkennandi hluti hennar er eðlislíkt:

    a. búvöru, þ.m.t. afurðum eldisfiska, sem er ræktuð hér á landi,
    b. vöru sem er framleidd hér á landi á garðyrkjubýli, gróðrarstöð eða garðyrkjustöð eða
    c. nytjastofnum sjávar sem veiddir eru af íslenskum skipum innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.

Þá er sérstaklega fjallað um það í ákvæðinu að hugverk telst íslenskt ef það er samið eða skapað af íslenskum aðila og að hönnunarvara teljist íslensk ef hún er hönnuð af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki. Hönnunarvara sem uppfyllir þessi skilyrði má bera fánann þó hún sé framleidd erlendis, svo lengi sem einkennandi hluti vörunnar er ekki eðlislíkt þeim hráefnum sem talin eru upp hér að ofan. Ef íslensk hönnunarvara er framleidd erlendis og ber íslenska fánana þá ber að taka fram hvert framleiðsluland hennar er.

Ekki þarf að sækja um leyfi áður en söluvara er merkt íslenska fánanum eða notaður í auglýsingum en Neytendastofa getur bannað notkun á fána telji hún skilyrðin ekki uppfyllt.

Fyrirtæki eða einstaklingar sem vilja notast við íslenska fánann í vörumerki sínu fá vörumerkið ekki skráð hjá Hugverkastofu án undangengins leyfis Neytendastofu.

TIL BAKA