Fara yfir á efnisvæði

Málsmeðferð við skráningu vörumerkis með íslenska fánanum

CE Marking

 Einstaklingar og fyrirtæki sem hyggjast fá skráð vörumerki hjá Hugverkastofu með þjóðfánanum þurfa að hafa leyfi Neytendastofu fyrir notkuninni áður en vörumerkið verður skráð. Sá sem óskar skráningar á vörumerki með íslenska fánanum byrjar á því að leggja inn umsókn um skráningu hjá Hugverkastofu sem í kjölfarið framsendir erindið til Neytendastofu. Umsókn um skráningu vörumerkis er þá sett á bið hjá Hugverkastofu þar til niðurstaða Neytendastofu liggur fyrir.

Áður en ákvörðun um leyfi er veitt þarf Neytendastofa nákvæmar upplýsingar um vöruna eða þjónustuna og hvernig skilyrði 12. gr. laga um þjóðfánann eru uppfyllt. Telji Neytendastofa skilyrðin uppfyllt veitir hún leyfi til skráningar vörumerkisins. Í kjölfarið er farið með leyfið til Hugverkastofu sem í framhaldi tekur umsókn um skráningu vörumerkis til efnislegrar meðferðar. Að öðru leyti fer um umsókn, skráningu og gildi skráningar vörumerkisins eftir lögum nr. 45/1997 um vörumerki.

Hafni Neytendastofa umsókn um leyfi til skráningar vörumerkis með íslenska fánanum er umsókn um skráningu hjá Hugverkastofu jafnframt hafnað. Umsækjanda er þó veitt færi á að tjá sig áður en endanleg ákvörðun er tekin. Þess skal þó getið að um er að ræða kæranlega stjórnvaldsákvörðun. Sá sem fær umsókn um leyfi hafnað hjá Neytendastofu getur því kært neitunina til áfrýjunarnefndar neytendamála en höfnun umsókna um skráningu vörumerkja er unnt að áfrýja til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar.


TIL BAKA