Fara yfir á efnisvæði

Útsala og tilboð

Um útsölur og tilboð er fjallað í 11. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Þar segir að óheimilt sé að auglýsa eða tilkynna útsölu eða aðra sölu, þar sem selt er á lækkuðu verði, nema því aðeins að um raunverulega verðlækkun sé að ræða. Þá er einnig kveðið á um það að verðmerkingin þurfi greinilega að sýna hvert upprunalegt verð vörunnar var.  

Tilgangurinn með lagagreininni er að koma í veg fyrir að neytendur séu blekktir og að þeir geti áttað sig á verðmuninum. Verðlækkun verður þannig að felast í því að seljandi bjóði vöru á lægra verði en hann selur sams konar vöru venjulega á. Hafi verð verið hækkað í þeim tilgangi að geta síðan lækkað það myndi slíkt brjóta í bága við ákvæði lagagreinarinnar.

Neytendastofa hefur sett reglur, nr. 366/2008, um útsölur og aðra sölu þar sem selt er á lækkuðu verði. Reglurnar eru ákvæði laganna til fyllingar og þar koma fram ítarlegri ákvæði um útsölur. Í reglunum kemur fram að verðlækkun verði að vera raunveruleg og að seljandi verði að hafa selt vöruna á því verði sem hann reiknar útsöluverð af eða tilgreinir sem fyrra verð. Seljandi verður að geta sannað fyrir Neytendastofu að varan hafi verið seld á tilgreindu fyrra verði.

Í reglunum er einnig fjallað um að samhliða tilboðs- eða útsöluverði skuli tilgreina fyrra verð og ef veittur er prósentuafsláttur skuli tilgreina upphaflegt verð og það prósentuhlutfall sem reiknað er af verðinu Ef afsláttur er aukinn á meðan á útsölu stendur skal koma skýrt fram hvort hinn aukni afsláttur reiknist frá upphaflegu verði eða lækkuðu verði.

Útsala má ekki standa lengur en í sex vikur því þá er útsöluverðið orðið að venjulegu verði 

Dæmi um ákvörðun Neytendastofu vegna útsölu:

    •     Ákvörðun nr. 51/2015 Fyrra verð á tilboðsvörum Heimkaupa
    •     Ákvörðun nr. 39/2014 Framkvæmd útsölu og verðmerkinga Sports Direct
    •     Ákvörðun nr. 38/2014 Tilboðsauglýsingar Bauhaus

TIL BAKA