Fara yfir á efnisvæði

Samtengd ferðatilhögun

Samtengd ferðatilhögun er þegar a.m.k. tvær tegundir ferðatengdrar þjónustu eru keyptar af fleiri en einum seljanda með aðskildum samningum sem eru samtengdir. Kaupin teljast samtengd ferðatilhögun ef seljandi hefur milligöngu um að ferðamaður gerir samning við aðra seljendur vegna sömu ferðar.

Aðeins er um samtengda ferðatilhögun að ræða ef samsetningin myndar ekki pakkaferð eins og hún er skilgreind í lögum og seljandi hefur milligöngu um:

    a. að ferðamaður pantar aðra ferðatengda þjónustu á sölustað þ.m.t. á vefsíðu í sama pöntunarferli, eða
    b. gerir aðra pöntun, sem seljandi leggur til, og gengið er frá þeirri seinni innan 24 klst. frá staðfestingu pöntunar fyrstu ferðatengdu þjónustunnar.

Dæmi um samtengda ferðatilhögun samkvæmt a. lið væri ef ferðamaður er á vefsíðu seljanda og í kaupferlinu býðst honum að panta aðra ferðatengda þjónustu og með því að ýta á hlekk eða hnapp færist ferðamaðurinn á vefsíðu annars seljanda. Gera þarf greinarmun á því að ef upplýsingar um ferðamann, eins og t.d. nafn, netfang og greiðsluupplýsingar, færast sjálfkrafa inn hjá seinni seljandanum er ferðin pakkaferð en þurfi ferðamaður að fylla allar upplýsingar inn aftur verður til samtengd ferðatilhögun.

Dæmi um samtengda ferðatilhögun skv. b. lið væri ef ferðamaður hefur pantað ferðatengda þjónustu og fær í kjölfarið t.d. tölvupóst þar sem kynnt er fyrir honum að hann geti keypt aðra ferðatengda þjónustu í tengslum við ferðina. Gangi ferðamaðurinn frá seinni pöntuninni innan 24 klst. frá því að fyrri þjónustan var keypt verður til samtengd ferðatilhögun.

Upplýsingaskylda seljanda
Um upplýsingaskyldu seljanda vegna samtengdrar ferðatilhögunar gilda lög um neytendasamninga.
Því til viðbótar þarf seljandi að veita ferðamanni upplýsingar á stöðluðu eyðublaði þar sem fram kemur að hann hafi keypt samtengda ferðatilhögun og hver séu helstu réttindi samkvæmt því. Skortur á þessum upplýsingum getur leitt til þess að ferðin teljist pakkaferð, sem leiðir til aukinna réttinda fyrir ferðamanninn.

TIL BAKA