Fara yfir á efnisvæði

Einingarverð

Í reglum nr. 536/2011, um verðmerkingar og einingarverð við sölu á vörum, er kveðið á um skyldu fyrirtækja til að merkja vörur með einingarverði. Einingarverð bætir upplýsingar til neytenda og auðvelda þeim verðsamanburð.

Einingarverð er verð vörur miðað við ákveðna þyngdar- eða rúmmálseiningu, svo sem kíló, lítra eða metra. Þannig er einingarverð matvæla gefið upp miðað við hvern lítra sem seldur er miðað við rúmmál og hvert kíló sem selt er miðað við þyngd. Einingarverð annarra vara en matvæla er gefið upp í þeirri einingu sem varan er venjulega seld eftir, þ.e. miðað við kílógramm, tonn, lítra, kúbikmetra, metra, kílómetra, fermetra, stykki/100 stykki eða ráðlagðan dagsskammt.

Einingarverði er ætlað að auðvelda neytendum að velja vörur og gera verðsamanburð á sölustað á sama hátt og innihaldslýsing vöru gerir þeim kleift að bera saman gæði. Öll fyrirtæki sem selja vörur til neytenda eiga að merkja vörur sínar með einingarverði auk verðs. Þetta á einnig við þegar verð vöru er birt í auglýsingu.

Meginreglan er sú að gefa á upp einingarverð á öllum vörum. Frá reglunni eru þó örfáar undantekningar. Þannig þarf ekki að gefa upp einingarverð á eftirfarandi matvælum:

•    Vörum sem eru undir 5 g að nettóþyngd eða 5 ml að nettórúmmáli.
•    Forpökkuðum vörum sem settar eru saman og hafa mismunandi einingarverð.
•    Tilbúnum máltíðum í mismunandi hlutföllum sem forpakkaðar eru í eina sameiginlega pakkningu.
•    Eggjum sem seld eru forpökkuð í ákveðnum stærðarflokkum.
•    Kryddjurtum, ávöxtum og grænmeti sem selt er í stykkjatali, í búnti eða pottum.
•    Brauði, kökum, konfekti, ís og bakarísvörum sem ekki eru seld í forpakkningum.
•    Matvælum þar sem þarf að blanda saman við aðra vöru, þegar hlutfall vöru sem blanda þarf saman við er verulegt.
•    Vörum sem setja þarf saman við önnur efni en vatn.

Þá þarf ekki að gefa upp einingarverð á eftirfarandi vörum, sem ekki teljast matvæli:
•    Vörum sem ekki er unnt að hluta sundur eða skipta án þess að breyta eðli þeirra eða eiginleikum.
•    Vörum sem hafa mismunandi einingarverð en eru seldar í sama pakka.
•    Vörum sem eru seldar forpakkaðar og hafa nettóþyngd sem er minna en 5 g eða 5 ml.

TIL BAKA