Verðmerkingar
Verðmerking á vörum
Til viðbótar ákvæði laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptahættum og markaðssetningu, er í reglum nr. 536/2011 um verðmerkingar og einingarverð við sölu á vörum, að finna nánari útfærslu á því hvernig staðið skuli að því að verðmerkja vörur.
Samkvæmt reglunum á að verðmerkja vörur með merkimiða á sérhverja pakkningu eða sölueiningu, með hillumerkingu, með skilti eða verðlista eða með verðskanna. Meginreglan er sú að merkja skuli hverja pakkningu eða notast við hillumerkingu sem er auðlæs. Heimilt er að nota skilti eða verðlista ef þannig merking er skýrari en hillumerking og merking á hverja pakkningu felur í sér óhagkvæmni fyrir fyrirtækið. Verðskanna má eingöngu nota í einstökum tilvikum, þ.e. þegar varan er forpökkuð frá framleiðanda og ekki í staðlaðri þyngd. Í þeim tilvikum á fyrirtækið að tilgreina einingarverð vörunnar með hillumerki eða skilti og svo þarf verðskanni að vera nálægt vörunni. Samhliða endanlegu söluverði á að tilgreina einingarverð, þar sem það á við.
Ástæðan fyrir því að svo mikilvægt er að verð sé á vörunni sjálfri eða við hana er sú að einungis þannig geta neytendur auðveldlega áttað sig á samhenginu á milli vöru og verðs. Þannig verður verðmerking á hillu alltaf að vera alveg við vöruna og eins nálægt henni og mögulegt er þegar verðmerkt er með skilti eða verðlista.
Neytendastofa heldur úti verðmerkingareftirliti þar sem því er fylgt eftir hvort verslanir verðmerki vörur rétt. Ef verslanir verðmerkja ekki vörurnar sínar leggur Neytendastofa á stjórnvaldssektir. Dæmi um ákvarðanir Neytendastofu þar sem lagðar hafa verið stjórnvaldssektir á fyrirtæki fyrir að fara ekki að verðmerkingarreglum:
• Ákvörðun nr. 23/2010 Ákvörðun um sektir vegna vanrækslu Kaupáss hf., rekstraraðila Krónunnar, að fara að tilmælum Neytendastofu um verðmerkingar í verslun Krónunnar að Hvaleyrarbraut.
• Ákvörðun nr. 15/2010 Ákvörðun um sektir vegna vanrækslu Febrúar ehf., sem er rekstraraðili 2 Smára, að fara að tilmælum Neytendastofu um verðmerkingar.
Verðmerking á þjónustu
Í reglum nr. 537/2011, um verðupplýsingar við sölu á þjónustu, er gerð sú almenna krafa til þjónustufyrirtækis að það hafi uppi skýra verðskrá eða skilti með verði á allri þjónustu sem fyrirtækið veitir. Ef þjónustuframboð er mjög mikið má fyrirtækið birta einungis útdrátt úr verðskrá en heildarverðlisti verður ávallt að vera til staðar. Þá verða veitingastaðir að hafa matseðil með verðum aðgengilegan við inngöngudyr.
• Ákvörðun nr. 45/2010 Ákvörðun um sektir vegna vanrækslu RT Veitinga ehf., rekstraraðila Ruby Tuesday, að fara að tilmælum Neytendastofu um verðmerkingar.
• Ákvörðun nr. 13/2009 Ákvörðun um sektir vegna vanrækslu Hársnyrtistofunnar Rauðhetta og úlfurinn ehf. að fara að tilmælum Neytendastofu um verðmerkingar.