Börn og auglýsingar
Í 7. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 er að finna ákvæði um börn og auglýsingar. Þar kemur fram að auglýsingar verða að miðast við að börn sjái þær og heyri og mega þær ekki misbjóða börnum. Þá þarf að sýna sérstaka varkárni vegna trúgirni barna og unglinga. Komi börn fram í auglýsingum verður einnig að gæta þess að þau taki ekki þátt í hættulegu atferli sem geti leitt til þess að þau eða önnur börn komist í hættu eða geri eitthvað sem er óheimilt.
Vörur fyrir börn má því auglýsa og börn mega koma fram í auglýsingum en aftur á móti þarf að taka sérstakt tillit til þeirra. Þá verða börn sem koma fram í auglýsingum að vera eðlilegur þáttur í því umhverfi sem er sýnt.
Neytendastofa gerir jafnframt þá kröfu að auglýsendur sendi ekki markpóst til barna heldur forráðamenn þeirra sem síðan velja hvort börnunum verði kynnt það sem þar kemur fram.
Í reglugerð um viðskiptahætti sem í öllum tilvikum teljast óréttmætir, nr. 160/2009, segir í 28. gr. að það teljist uppáþrengjandi viðskiptahættir, og þar með óréttmætir, að láta í auglýsingu felast beina hvatningu til barna um að kaupa auglýsta vöru eða telja foreldra þeirra eða aðra fullorðna á að kaupa auglýsta vöru handa þeim.
Dæmi um ákvarðanir Neytendastofu þar sem 7. gr. laga um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins hefur verið beitt:
- Ákvörðun nr. 58/2011, Auglýsingaherferð kvikmyndarinnar Algjör Sveppi og Töfraskápurinn
- Ákvörðun nr. 15/2005, Auglýsingar Umferðarstofu nú Samgöngustofu
Til viðbótar þessu sem hér er talið er fjallað um börn og auglýsingar í eftirfarandi reglum:
-
leiðbeiningarreglur um aukna neytendavernd barna varðandi markaðssókn sem beinist að börnum
- í 28. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011 er fjallað um vernd barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum og fjölmiðlaefni
- í siðareglum Sambands íslenskra auglýsingastofa er í 18. gr. að finna ákvæði um börn og unglinga