Fara yfir á efnisvæði

Almenn vara

Um almenna vöru sem markaðssett er hér á landi gilda ákvæði laga nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu með áorðnum breytingum. Lögin gilda um vöru sem viðskipti eiga sér stað með hér á landi í atvinnuskyni eða er flutt út til annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Undir gildissvið laganna falla því vörur sem engin sérstök lög eða reglur um öryggi gilda um. Dæmi um slíka vörur eru barnavara, fatnaður, húsgögn, skrautbúnaður, kveikjarar og frístundabúnaður. Ef ákvæði annarra sérlaga ganga skemur en ákvæði laga um öryggi vöru þá gilda ákvæði vöruöryggislaganna.

Lögin taka einnig til þjónustu sem veitt er í tengslum við vöruviðskipti og þau eiga jafnt við um vörur sem boðnar eru gegn gjaldi eða endurgjaldslaust.Ákvæði laganna ná til vöru sem boðin er neytendum en ekki til vöru eða þjónustu sem nær eingöngu er framleidd eða unnin með frekari framleiðslu í atvinnurekstri. Lögin gilda ekki um fornmuni eða notaðra lausafjármuni. Tilgangur laganna er að tryggja að eingöngu sé markaðssett örugg vara.Vörur sem falla undir ofangreind lög eiga ekki að vera CE-merktar. 

Mat á öryggi vöru

Öryggi vörunnar er m.a. metið með hliðsjón af eftirfarandi:
  • Vara telst örugg ef hún uppfyllir skilyrði sem fram koma í íslenskum stöðlum sem innleiða samhæfða Evrópska staðla (ÍST EN), sem tilvísun hefur verið birt í hér á landi og í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins í samræmi við ákvæði tilskipunar um öryggi vöru. Hér má nálgast lista yfir birta staðla.
  • Eðli vörunnar, þar með talið samsetningu, umbúðum, samsetningarleiðbeiningum og þar sem við á uppsetningar- og viðhaldsleiðbeiningum.
  • Áhrifum hennar á aðrar vörur ef fyrirsjáanlegt er að hún verði notuð með öðrum vörum.
  • Framsetningu vörunnar, merkingum og ef við á varnaðarorðum og leiðbeiningum um notkun og förgun auk hvers kyns ábendinga eða upplýsinga fyrir vöruna.
  • Almennum leiðbeiningum sem henni fylgja, svo sem merkingum á henni, leiðbeiningum um notkun og förgun og öðrum upplýsingum sem framleiðandi lætur í té.
  • Öryggi hennar gagnvart viðkvæmum notendum, svo sem börnum og fullorðnum einstaklingum.
  • Séríslenskum stöðlum og evrópustöðlum, öðrum en þeim sem getið er um ofar.
  • Tilmælum Evrópusambandsins þar sem fram koma viðmiðunarreglur um öryggi vöru.
  • Gildandi lögum og reglum um góðar starfsvenjur varðandi öryggi og vöru innan atvinnugreinar.

 

TIL BAKA