Fara yfir á efnisvæði

Skiptileigusamningar - Timeshare

Skiptileigusamningur er samningur sem gildir lengur en í eitt ár og veitir neytanda rétt til þess að nota gistiaðstöðu í eina nótt eða lengur í fleiri en eitt dvalartímabil. Neytandi kaupir m.ö.o. hlutdeild í orlofshúsnæði í ákveðinn tíma á hverju ári og er yfirleitt um að ræða einbýlishús, sumarhús eða orlofsíbúðir.

Á Íslandi hefur hingað til ekki verið virkur markaður með skiptileigusamninga og virðast Íslendingar í fáum tilvikum kaupa slík réttindi erlendis.

Um skiptileigusamninga gilda lög nr. 120/2013 um skiptileigusamninga fyrir afnot af húsnæði í orlofi eða frístundum o.fl. Lögin eiga að veita neytendum betri vernd, sem m.a. er gert með því að herða reglur um upplýsingaskyldu seljenda, auk þess sem að nú er skylt að nota samræmt og staðlað form þar sem helstu upplýsingar eru settar fram.

Meðal þeirra upplýsinga sem neytendur eiga rétt á að fá fyrir samningsgerð eru:

    •     nafn og heimilisfang seljanda,
    •     tegund og efni þeirra réttinda sem samningur kveður á um,
    •     gildistíma samnings, hvenær unnt er að nýta sér réttindi hans og hvaða skilyrði eru sett til riftunar samningi,
    •     lýsingu á fasteign, sameign o.fl. sem samningurinn tekur til,
    •     verð og allan viðbótarkostnað eða gjöld sem neytandi þarf að standa skil á,
    •     réttur neytanda til að falla frá samningi og innan hvaða tímafrests það skuli gert,
    •     að ekki sé heimilt að greiða fyrir fram,

Í lögum nr. 120/2013 er einnig kveðið á um góða viðskiptahætti. Gerð er sú krafa að þegar seljendur bjóða neytendum samninga persónulega á viðskipta- og sölukynningum skuli þeir taka skýrt og greinilega fram að um sé að ræða kynningu.

Neytandi getur fallið frá samningi án þess að tilgreina nokkra ástæðu fyrir uppsögn sinni innan fjórtán daga frá því að hann er undirritaður, eða neytandi hefur móttekið hann ef neytandi fær samning afhentan eftir að undirritun hefur farið fram.

Neytendastofa hefur eftirlit með framkvæmd laganna og gilda ákvæði laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, um málsmeðferð Neytendastofu.

TIL BAKA