Fara yfir á efnisvæði

Google og Apple hafa brugðist við kröfum neytenda

22.12.2014

Neytendastofa tekur þátt í samstarfi evrópskra eftirlitsstofnana á sviði neytendamála, svonefndu Consumer Protection Cooperation Network. Eitt af fjölmörgum viðfangsefnum hafa verið svokölluð „in-app“ kaup en með þeim er átt við rafræn kaup í smáforritum (öppum) eða tölvuleikjum. Mikill fjöldi kvartana hefur borist frá neytendum á evrópska efnahagssvæðinu vegna þessa.

Fyrir um ári síðan óskuðu evrópskar eftirlitsstofnanir og Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sameiginlega eftir tillögum frá stórfyrirtækjum vegna „in app“ kaupa sem auglýst eru með orðunum „frítt“ eða „ókeypis“. Margir slíkir leikir eru auglýstir með þessum orðum en þegar komið er á visst stig leikjanna þarf að greiða fyrir vissa hluti, næsta borð, áframhaldandi notkun, o.s.frv.

Síðastliðið sumar féllust Apple og Google á að gera breytingar á framsetningu smáforrita til þess að gera slík kaup öruggari og til þess að neytendur geti betur áttað sig á raunverulegum kostnaði vegna notkunar smáforrita.

  • Google mun ekki nota orðin  „frítt” eða  „ókeypis” þegar um er að ræða tölvuleiki sem gera ráð fyrir  „in app” kaupum. Google hefur jafnframt sett forriturum smáforrita leiðbeiningar í því skyni. Þá verða sérhver in app” kaup að vera fyrirfram samþykkt áður en greiðsla fer fram nema að neytandi velji sérstaklega aðrar stillingar.
  • Apple hefur einnig fallist á að hætta að nota orðin  „frítt” eða  „ókeypis” í hnöppum sem notaðir eregar tölvuleikjum er niðurhalað. Þá hefur Apple byrjað að undirbúa breytingar á greiðslukerfi smáforrita þannig að neytendur geti sérsniðið greiðslufyrirkomulag.
  • Bæði fyrirtæki munu bjóða neytendum að hafa samband á sérstöku veffangi eða rafrænu kerfi svo hægt sé að koma athugasemdum á framfæri.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og aðildarríki EES munu fylgja málinu eftir og fylgjast með því hvort boðaðar aðgerðir nái tilætluðum árangri.

Á vettvangi samstarfsins hefur nú verið gefið út fréttatilkynningu þar sem meðal efnis er umfjöllun um ofangreindar aðgerðir.

Fréttatilkynninguna má nálgast hér.

Sjá einnig fyrri frétt Neytendastofu um „in app“ kaup hér.

TIL BAKA