Fara yfir á efnisvæði

Innköllun og sölubann á leikföngum hjá Extrakaup

29.12.2020

Neytendastofa hefur bannað sölu og afhendingu á leikföngunum bleik og blá Hello Kittý, „Double Decker“ tréleikfangi, „SUPER HERO“ hömrum, með mynd af The Avengers, „SUPER HERO“ leikfangakall sem lítur út eins og Black Panther ofurhetja og „LAUNCHING MISSILE“ leikfangaköllum sem voru seld í versluninni Extrakaup við Hverfisgötu.

Leikföngin voru skoðuð í kjölfar ábendingar um að í versluninni væru seld leikföng sem gætu verið hættuleg fyrir börn. Við nánari skoðun Neytendastofu kom í ljós að þau voru ekki CE merkt. Í kjölfarið var sett tímabundið sölubann á leikföngin auk þess sem óskað var eftir nauðsynlegum gögnum frá versluninni sem sýnt gætu fram á öryggi leikfanganna.

Í ljósi þess að engin gögn eða svör bárust var það niðurstaða Neytendastofu að leikföngin uppfylltu ekki lágmarkskröfur um öryggi. Jafnframt var farið fram á að vörurnar „SUPER HERO“ The Avengers hamrar og „SUPER HERO“ Black Panther leikfangakall væru innkölluð þar sem börn geti auðveldlega opnað rafhlöðuhólf leikfanganna og náð í rafhlöðurnar.

Neytendastofa vill ítreka að það má ekki selja leikföng nema að þau séu CE merkt. Merkið þýðir að varan hafi verið prófuð miðað við ætlaða notkun og þann aldurshóp sem varan er framleidd fyrir. Ef varan er í lagi og stenst allar prófanir ásamt því að allar merkingar og leiðbeiningar séu í lagi má setja CE merkið á vöruna.

Ákvarðanirnar má lesa í heild sinni hér.


TIL BAKA