Fara yfir á efnisvæði

Viðskiptahættir BPO Innheimtu ehf.

11.06.2021

Neytendastofa leitaði skýringa BPO Innheimtu á viðskiptaháttum fyrirtækisins í kjölfar ábendinga frá neytendum, Neytendasamtökunum og fjölmiðlaumræðu. Í erindinu kom fram að til álita kæmi hvort tilkynning BPO Innheimtu og aðferðir við innheimtu á kröfum sem keyptar voru frá gömlu smálánafyrirtækjunum hafi falið í sér óréttmæta og villandi viðskiptahætti.

BPO Innheimta hafnaði því að félagið hafa stundað óréttmæta og villandi viðskiptahætti. Félagið hafi sent skuldurum tilkynningu um að það hafi keypt kröfusafn smálána og að vextir og lántökukostnaður hafi verið felldir niður. Þá taldi BPO Innheimta að kröfurnar sem stofnaðar voru í netbönkum skuldara hafi verið réttar og birting þeirra geti ekki talist villandi eða óréttmætir viðskiptahættir. Skuldarar hafi haft tækifæri til að greiða kröfur félagsins án vanskilakostnaðar þótt tíminn til þess hafi verið skammur. Kerfistakmarkanir í netbönkum geri það að verkum að kröfurnar virtust hækka daginn eftir og komi í veg fyrir að hægt sé að birta sundurliðun kröfunnar. Því sé ekki um villandi eða óréttmæta viðskiptahætti að ræða.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að birting umræddra krafna í netbönkum neytenda, með öllum gjöldum og áföllnum vanskilakostnaði, áður en neytendur voru upplýstir um efni eða eiganda krafnanna bryti í bága við góða viðskiptahætti. Þá var það niðurstaða Neytendastofu að birting krafna með gjalddaga og eindaga sama dag og kröfurnar voru birtar í netbönkum neytenda þar sem kröfurnar hækkuðu umtalsvert skömmu eftir birtingu þeirra fæli í sér óréttmæta viðskiptahætti. Enn fremur var það niðurstaða Neytendastofu að tilkynning BPO Innheimtu, sem bæði var send í tölvupósti til neytenda og birt í Fréttablaðinu þann 14. júní 2021, þar sem staðhæft var að allri óvissu um lögmæti krafnanna hafi verið eytt, hafi verið villandi gagnvart neytendum. Í tilkynninguna skorti upplýsingar sem almennt skipta máli fyrir neytendur og hún var til þess fallin að hafa áhrif á ákvörðun neytenda um að eiga viðskipti, auk þess að brjóta í bága við góða viðskiptahætti.

Að mati Neytendastofu voru brot BPO Innheimtu bæði umfangsmikil og alvarleg og því óhjákvæmilegt að leggja stjórnvaldssekt á félagið. Þó var einnig litið til samstarfsvilja félagsins og þeirra aðgerða sem BPO Innheimta greip til að eigin frumkvæði og því var sektarfjárhæð ákveðin 1.500.000 krónur.

Lesa má ákvörðunina í heild sinni hér

TIL BAKA