Fara yfir á efnisvæði

Hækkun vaxtaálags Birtu lífeyrissjóðs

04.10.2021

Neytendastofu bárust ábendingar frá neytendum og Hagsmunasamtökum heimilanna vegna vaxtaendurskoðunar veðskuldabréfa hjá Birtu lífeyrissjóði. Af því tilefni óskaði Neytendastofa skýringa og athugasemda sjóðsins um skilmála veðskuldabréfa sjóðsins sem snúa að hækkun vaxtaálags og tilkynningu sjóðsins um hækkun vaxtaálags sem birt var á vefsíðu sjóðsins.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun sjóðsins um hækkun vaxtaálags hafi átt sér stoð í skilmálum veðskuldabréfa sjóðsins. Að sama skapi var það álit Neytendastofu að skilmáli veðskuldabréfa sjóðsins, sem segir að heimilt sé að endurskoða vaxtaálag lána sjóðsins með tilliti til þeirra vaxtakjara sem í boði eru á sambærilegum lánum á markaði, fari ekki í bága við ákvæði laga um fasteignalán.

Það var hins vegar niðurstaða Neytendastofu að orðalag tilkynningar sjóðsins um hækkun vaxtaálags, sem birt var á vefsíðu sjóðsins, hafi verið villandi fyrir neytendur og byggði samkvæmt útskýringum sjóðsins ekki á raunverulegum ástæðum sem lágu að baki umræddrar ákvörðunar. Var það því mat stofnunarinnar að orðalag og efni tilkynningar Birtu lífeyrissjóðs hafi verið villandi fyrir neytendur og þar með falið í sér óréttmæta viðskiptahætti.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA